Öryggi og velferð - okkar þarfir
Fyrir utan lág laun og illa meðferð á vinnumarkaði eru mörg vandamál sem herja á verka- og láglaunafólk. Baráttulistinn vill að Efling haldi vöku sinni gagnvart öllum þeim málum, móti sér sjálfstæða stefnu í þeim og vinni henni brautargengis bæði í kjaraviðræðum og á milli þeirra.
Stórátak í húsnæðismálum
Húsnæðismarkaðurinn á Íslandi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, er stjórnlaus. Skortur á húsnæði er viðvarandi og spákaupmenn nýta sér ástandið til að þenja upp fasteignabólur. Efnuð millistétt sem komist hefur inn í hlýju séreignarstefnunnar eykur sífellt á eignamyndun sína, á meðan leigjendur þjást, efnaminna fólk horfir á drauminn um að komast í eigið húsnæði fjarlægjast og aðflutt verkafólk býr í ósamþykktu iðnaðarhúsnæði. Stórátaks í húsnæðismálum er augljóslega þörf, en það dugar ekki að loðin vilyrði um slíkt séu notuð sem skiptimynt í kjaraviðræðum. Baráttulistinn vill að Efling og verkalýðshreyfingin beiti sér fyrir því að fengin verði fram hörð og afdráttarlaus skuldbinding til útfærðra aðgerða, sem séu bæði tímasettar og fjármagnaðar.
Skatta- og bótakerfin efld
Skatta- og bótakerfi hins opinbera eru of veikluð, og þjóna hvorki hinum tekjulægstu né þeim sem slaga upp í meðaltekjur. Endurskoða þarf samanlögð áhrif skattkerfisins (tekjuskattur og fjármagnstekjuskattur) og bótakerfanna (barnabætur og húsnæðisbætur) þannig að skattbyrðin sé borin af þeim sem hana þola og þannig að bætur séu ekki bundnar einungis við sárafátæka. Baráttulistinn vill vinna áfram á grunni dýrmætrar greiningarvinnu sem unnin hefur verið á vegum Eflingar á þessum kerfum og hvernig megi efla þau í þágu verka- og láglaunafólks.
Endurskoðun á samspili almannatrygginga og lífeyrisgreiðslna
Það er kominn tími til að valdhafar hlusti á háværar raddir lífeyrisþega sem geta ekki unað við ósanngjarnar og íþyngjandi skerðingar á grunnlífeyri almannatrygginga. Eflingarfélögum er málið skylt þótt þeir séu á vinnumarkaði, enda lendir verka- og láglaunafólk frekar í örorku en aðrir hópar og eignalítið láglaunafólk hefur fátt annað en lífeyrisgreiðslur til að treysta á í ellinni. Lífeyrissjóðakerfið var ekki stofnað til að greiða niður almannatryggingar og þaðan af síður til að gera ríkissjóð að stærsta lífeyrisþeganum. Baráttulistinn lýsir samstöðu með baráttu öryrkja og eldri borgara gegn skerðingum og krefst tafarlausrar hækkunar á skerðingarmörkum, sem í dag eru alltof lág.