Félagsfólk í forgrunni
Baráttulistinn vill minna á að orðið „Efling“ þýðir ekki skrifstofur félagsins eða örfáir einstaklingar í forystu þess. Efling er félag stofnað af verkafólki, samsett úr verkafólki og í eigu verkafólks.
Í samræmi við stefnu Baráttulistans um fjölda, samstöðu og sýnileika í baráttunni út á við, þá vill Baráttulistinn sömuleiðis að fjölmenn og sýnileg þátttaka félagsfólks ráði för í innra starfi Eflingar.
Hlutverk félagsfólks í innra starfi styrkt
Baráttulistinn lýsir ánægju með aukinn kraft í félagslegu starfi Eflingar síðustu ár. Mæting og virkni hefur stóraukist meðal félaga í trúnaðarráði. Samninganefndir hafa verið öflugar og sannað að árangur í kjaraviðræðum fæst með beinni þátttöku félagsfólks.
Baráttulistinn vill auka hlutverk félagsfólks sjálfs í skipulagi, undirbúningi og utanumhaldi tengt félagslegu starfi. Baráttulistinn vill að stefnt verði að því að fundir trúnaðarráðs verði að sem mestu leyti undir stjórn félagsfólks sjálfs. Þannig fái félagsfólk nauðsynlega þjálfun og styrkingu til þess að gegna hlutverkum á borð við fundarstjórn, umræðustjórnun og fundarritun.
Fræðsla á okkar forsendum
Baráttulistinn vill efla og endurskoða skipulag á fræðslumálum félagsfólks. Baráttulistinn vill að félagið sjálft annist þjálfun og fræðslu trúnaðarmanna, fremur en að sú fræðsla sé útvistuð til annarra. Námskeið trúnaðarmanna Eflingar verði löguð með skýrari hætti að samsetningu, þörfum og raunveruleika Eflingarfélaga. Jafnframt verði lærdómur félagsins og félagsfólks af kjarabaráttu síðustu ára samtvinnaður námskeiðunum.
Baráttulistinn vill jafnframt styrkja annað félagslegt námskeiðahald, þannig að áhugasamt félagsfólk fari ekki á mis við tækifæri til öðlast meiri styrk og færni í félagsmálum og skipulagðri baráttu. Byggt verði á þeim grunni sem lagður var með stofnun Vitans - skóla Eflingar og honum falið viðameira hlutverk. Endurbætt og salarkynni Félagsheimilis Eflingar á 4. hæð í Guðrúnartúni 1 verði nýtt til hins ýtrasta.
Sterkara trúnaðarmannakerfi
Efla þarf utanumhald og stuðning við trúnaðarmannakerfi félagsins. Trúnaðarmannakerfið er lífæð félagsins inn á vinnustaðina, og trúnaðarmenn gegna sérstöku hlutverki í samskiptum við almennt félagsfólk. Reynslan sýnir að ekki dugar að eingöngu fjölga trúnaðarmönnum með kosningu á vinnustað, heldur þarf einnig að fylgja kosningu trúnaðarmanna eftir með öflugri fræðsluáætlun og skipulögðum samskiptum og stuðningi. Baráttulistinn vill nota krafta félagsins til að halda betur utan um þessi verkefni.