Sólveig Anna Jónsdóttir

Sólveig Anna Jónsdóttir

Fyrrverandi formaður Eflingar

Ég heiti Sólveig Anna. Áður en ég var kjörinn formaður Eflingar með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða vorið 2018 starfaði ég í 10 ár á leikskóla í Reykjavík ásamt því að vinna við afgreiðslu í búð. Ég var einnig virk í ýmis konar samfélagslegri réttlætisbaráttu. Á meðan ég var formaður Eflingar gekk félagið í endurnýjun lífdaga. Það breyttist úr ólýðræðislegu, lokuðu og duglausu bákni í helstu og áhrifamestu baráttusamtök verka- og láglaunafólks í landinu. Samninganefndir undir minni forystu skiluðu vinnandi fólki efnahagslegum ávinning. Félagsfólk tók mikinn og öflugan þátt í baráttunni fyrir betra lífi og réttlátara samfélagi. Ég vil ásamt félögum mínum á Baráttulistanum halda áfram þessu mikilvæga verkefni. Reynslan hefur kennt mér að ef verkafólk stendur saman, vopnað hugrekki og vissunni um eigið mikilvægi, þá getum við unnið raunverulega sigra. Nákvæmlega það viljum við á Baráttulistanum halda áfram að gera með félagsfólki Eflingar.
Innocentia F. Friðgeirsson

Innocentia F. Friðgeirsson

Landspítalinn - eldhús

Ég heiti Innocentia. Ég kom til Íslands árið 2002 og hef búið hér síðan þá. Ég hef unnið á Landspítalanum í eldhúsdeild sem matráður í meira en 16 ár. Ég tala móðurmál mitt sem nefnist Ewe, ensku og íslensku. Ég hef verið trúnaðarmaður Eflingarfélaga á mínum vinnustað og setið í stjórn Eflingar. Ég er meira en tilbúin að vinna með Sólveigu Önnu og öllum Eflingarfélögum í baráttu láglaunafólks og verkafólks sem ekki hefur rödd á sínum vinnustað, til að þau eigi betri möguleika.
Ísak Jónsson

Ísak Jónsson

Grand Hotel Reykjavík

Ég heiti Ísak og er tæknimaður á Grand Hotel Reykjavík. Ójöfnuður í landinu hefur aukist jafnt og þétt síðustu áratugina. Það er nauðsynlegt að verkalýðsfélögin veiti öflugt mótvægi gegn þessari þróun, sérstaklega á tímum ríkisstjórnar þar sem allir stjórnarflokkarnir vilja halda áfram á braut vaxandi ójafnaðar. Ég býð mig fram til setu í stjórn Eflingar vegna þess að ég vil leggja mitt af mörkum til að sjá til þess að það svigrúm sem sannarlega er til staðar í samfélaginu nýtist vinnandi stéttum.
Kolbrún Valvesdóttir

Kolbrún Valvesdóttir

Heimaþjónusta, Reykjavíkurborg

Ég heiti Kolbrún og vinn vaktavinnu í heimaþjónustu hjá borginni. Ég hef alla tíð haft áhuga á verkalýðsmálum og þegar mér gafst tækifæri til að bjóða mig fram í stjórn Eflingar vorið 2018 var engin spurning að taka þátt. B-listinn okkar með Sólveigu Önnu sem formannsefni vann þá mikinn sigur og ég hef verið í stjórn síðan. Eftir það var ég í samninganefndinni gegn Reykjavíkurborg ásamt því að sitja í nefnd um verkfallsundanþágur. Síðustu áratugi hefur launabilið í landinu verið að aukast og sér ekki fyrir endann á því. Í síðustu samningum kröfðumst við krónutöluhækkana með sérstakri áherslu á lægstu laun í stað prósentuhækkana til að snúa þessari þróun við. Það var rétt aðferð og við eigum að halda henni áfram. Nú er mikil pressa að innleiða Salek-kerfi þar sem prósentuhækkanir verða niðurnegldar, enginn verkfallsréttur og langur samningstími. Þessu kerfi er stefnt gegn þeim sem vinna á lægstu launum. Ég vil berjast fyrir réttlæti til handa láglaunafólki með Sólveigu Önnu, öðrum á Baráttulistanum og öllum Eflingarfélögum.
Michael Bragi Whalley

Michael Bragi Whalley

Leikskólinn Nes, Reykjavíkurborg

Ég heiti Michael Bragi og er fæddur á Englandi en hef verið búsettur á Íslandi í 35 ár. Ég hef unnið á Leikskólanum Nes hjá Reykjavíkurborg sem leiðbeinandi í 20 ár og verið trúnaðarmaður í 15 ár. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á réttindum og launakjörum láglaunafólks og baráttunni sem því fylgir. Ég var í samninganefnd Eflingarfélaga í kjaradeilunni við Reykjavíkurborg veturinn 2019-2020 og vorið 2020 tók ég sæti í stjórn félagsins. Ég er stoltur af að hafa tekið þátt í að koma Eflingu á þann stað sem félagið er í dag. Ég styð Sólveigu Önnu til að leiða okkur í gegnum þau mikilvægu verkefni sem eru framundan og til að berjast með okkur til að bæta kjör og réttindi félagsfólks í Eflingu.
Olga Leonsdóttir

Olga Leonsdóttir

Skjól hjúkrunarheimili

Ég heiti Olga og kem frá Lettlandi. Ég hef unnið á hjúkrunarheimilinu Skjóli í 16 ár og verið trúnaðarmaður í 12 ár. Ég tala reiprennandi lettnesku, pólsku, rússnesku og íslensku. Mig langar að hjálpa fólki sem vinnur við erfiðar vinnuaðstæður og er á lágum launum. Þess vegna vil ég styðja Sólveigu Önnu til að halda áfram að berjast með okkur. Svo vinnandi fólk geti eignast betra líf.
Sæþór Benjamín Randalsson

Sæþór Benjamín Randalsson

Barnavistheimilið Mánaberg, Reykjavíkurborg

„Saga mannkynsins er saga stéttabaráttu“ var skrifað í frægri bók. Ég heiti Sæþór og kem frá Bandaríkjunum þar sem stéttarfélagsaðild er mjög lítil og verkalýðsfélög þurfa að berjast fyrir tilveru sinni. Mig hafði dreymt um að vera í verkalýðsfélagi frá því áður en ég flutti til Íslands. Að taka þátt í verkföllum Eflingar árið 2020 snerti mig djúpt. Eftir þá reynslu ákvað ég að styðja stefnu Sólveigar Önnu. Hún hefur sýnt djúpan skilning á stéttabaráttu á Íslandi og hefur unnið hörðum höndum að því að byggja upp getu Efling til að ná því fram sem við eigum skilið. Kurteisleg orð eru ekki nóg, við þurfum að taka það sem okkur ber með aðgerðum. Ég vil vera þátttakandi í forystu sem skilur þennan raunveruleika og hagar sér í samræmi við það. Þess vegna býð ég mig fram til stjórnar með Sólveigu og hinum á Baráttulistanum.
Guðbjörg María Jósepsdóttir

Guðbjörg María Jósepsdóttir

Leikskólinn Gullborg, Reykjavíkurborg

Ég heiti Guðbjörg María. Ég er alin upp á landsbyggðinni en bý nú í Vesturbænum og hef unnið á leikskólanum Gullborg síðan 2013. Ég hef verið trúnaðarmaður í 3 ár ásamt því að vera í trúnaðarráði Eflingar. Ég var virk með öðrum Eflingarfélögum þegar við fórum í verkfall árið 2020. Að hlusta á barátturæður Sólveigar Önnu og Viðars veitti mér innblástur og gaf mér von um bætt kjör láglaunafólks. Loksins vorum við ekki lengur ósýnileg heldur sást greinilega hvað við erum ómissandi fyrir samfélagið. Formaður Eflingar þarf að hafa bein í nefinu og það hefur Sólveig Anna svo sannarlega. Við þurfum formann sem þorir að hafa hátt og lætur ekki vaða yfir sig. Ég hlakka til að halda baráttunni áfram með Sólveigu Önnu og öllu frábæra fólkinu á Baráttulistanum.